Áætlaður þjóðhagslegur kostnaður af rafmagnsleysi vegna fyrirvaralausra truflana í flutnings- og dreifikerfum raforku á árinu 2020 er metinn á um 1.928 m.kr. eða um 770 kr./kWh. Ef frá er talin sú skerðing sem varð hjá stórnotendum árið 2020 er þjóðhagslegur kostnaður vegna truflana á afhendingu raforku til almennra notenda árið 2020 um 2.850 kr./kWh.

Í skýrslunni „Kostnaður vegna raforkuskorts. Tölur til notkunar árin 2021, 2022, 2023 og 2024.“ eru birtar tölur um þjóðhagslegan kostnað vegna truflana í afhendingu raforku árið 2020. Einnig er fjallað um þá aðferðarfræði sem START hópurinn hefur þróað til að meta kostnað vegna truflana á afhendingu raforku síðustu 25 ár.

Hafa ber í huga að kostnaður getur verið mjög breytilegur milli ára þar sem hann veltur að miklu leyti á ytri aðstæðum, svo sem veðurfari. Til að mynda mælist kostnaður vegna raforkuskerðinga árið 2020 um 28% af heildarkostnaði skerðinga árið 2019. Árið 2019 sker sig nokkuð úr ef horft er til sögulegra talna um kostnað vegna skorts. Kostnaður vegna fyrirvaralausra truflana í flutnings- og dreifikerfum raforku var mjög hár á því ári vegna verulegs óveðurs sem varð í desember 2019 og olli miklu straumleysi á Norðurlandi vestra og eystra, en einnig var nokkuð um rafmagnsleysi vegna óveðursins á Austurlandi og Vestfjörðum.

Meðaltal þjóðhagslegs kostnaðar undanfarin 10 ár vegna fyrirvaralausra skerðinga raforku hefur verið um 2.140 m.kr. á föstu verðlagi, sem er 11% yfir kostnaði ársins 2020. Líkt og getið var hér að ofan var kostnaður ársins 2019 óvenju hár og ef horft er fram hjá því ári mælist meðalkostnaður síðustu 10 ára 1.605 m.kr. á föstu verðlagi.  

Sjá nánar skýrslu.

Merki